Um Saurbæ

Saurbær er staðsettur í hjarta Skagafjarðar við ána Svartá. Í Saurbæ búa þau Heiðrún Ósk Eymundsdóttir og Pétur Örn Sveinsson, ásamt dætrum sínum Árdísi Heklu og Halldóru Sól. Heiðrún og Pétur tóku við og keyptu Saurbæ árið 2014 af föður Heiðrúnar, Eymundi Þórarinssyni. Eymundur og Sigríður H Sveinsdóttir móðir Heiðrúnar voru bændu í Saurbæ í yfir 30 ár. Heiðrún er því uppalin á bænum og  hefur sama fjölskyldan búið þar síðan fyrir aldamótin 1900. Heiðrún er fimmti ættliður fjölskyldunnar sem tekur við búinu, en jafnframt fyrsta konan. Í Saurbæ eru skemmtilegar reiðleiðir auk þess sem hið fornfræga mótssvæði Vindheimamelar er handan við ána u.þ.b. í 1 km fjarlægð. Í Saurbæ er stunduð hrossarækt ásamt lítilli naugriparækt. Einnig er þar að finna nokkrar kindur, hundinn Lýru og köttinn Rósu. 

Saurbær liggur u.þ.b. 5 km frá þjóðvegi 1. Beygt er af þjóðvegi 1 við Varmahlíð, inn á veg 752 og keyrt u.þ.b. 5 km, þá er beygt til vinstri en þar er skilti sem merkt er Saurbær. Síðan er keyrt niður brekku og þar blasir bærinn við á vinstri hönd. Einnig er hægt að koma svokallaðan Vindheimaveg (vegur 753) en þá er keyrt yfir brúna og bærinn næsti bær á eftir á hægri hönd.

Heiðrún Ósk

Heiðrún Ósk er uppalin í Saurbæ og hefur verið í hestamennsku frá því hún man eftir sér. Hún byrjaði ung að ríða út og var ötul við að keppa enda stutt að fara á Vindheimamela. Hún hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari í yngri flokkum og var fyrsta titlinum einmitt landað á  Vindheimamelum. Heiðrún Ósk hefur tvisvar sinnum unnið ungmennaflokk á Landsmóti hestamanna á gæðingshryssunni Golu frá Yzta-Gerði,  fyrst árið 2002 og svo varði hún titilinn 2004. Heiðrúnu var þá einnig veitt Reiðmennsku verðlaun FT fyrir góða og fagmannlega reiðmennsku. Heiðrún hefur unnið með mörgu góðu fólki bæði hérlendis og erlendis. Það hófst þegar hún var 17 ára, og  vann hún  eitt sumar í Þýskalandi  hjá Rúnu Einarsdóttur og Karly Zingsheim á búgarði þeirra Gestüt Forstwald.  Heiðrún Ósk útskrifaðist frá Háskólanum á Hólum sem hestafræðingur og leiðbeinandi árið 2006 og hlaut þá einnig hina eftirsóttu Morgunblaðsskeifu, fyrir bestan árangur í reiðmennsku. Sumarið 2006 vann hún á Þingeyrum hjá Helgu Thoroddsen og Gunnari Ríkharðssyni, en Helga skrifaði hinar frábæru knapamerkjabækur. Heiðrún Ósk var í verknámi á Hvoli í Ölfusi hjá Ólafi H. Einarssyni og Þorvaldi Árna Þorvaldsyni hálfan vetur og vann þar eitt sumar í framhaldinu. Heiðrún útskrifaðist sem tamningamaður og þjálfari árið 2007 og hlaut þá tamningabikarinn fyrir bestan árangur á tamningaprófi. Heiðrún útskrifaðist sem þjálfari og reiðkennari C frá Hólum árið 2010. Heiðrún var búsett í Noregi á árunum 2011-2013 og þjálfaði þar hross fyrir kynbótasýningar og keppni hjá Inge Kringeland. Um vorið árið 2012 sýndi hún nokkur góð hross í eigu Inge, í Seljord í Noregi. Hún sýndi glæsi stóðhestinn Sævar frá Hæli, hlaut hann meðal annars 9 fyrir tölt, brokk, vilja og fegurð í reið.  Hún fékk þá sérstaka viðurkenningu sem fyrirmyndar sýnandi á sýningunni. Heiðrún temur og þjálfar hesta í Saurbæ, ásamt því að sýna og keppa á hestum úr eigin ræktun, sinna reiðkennslu og almennum bústörfum heima í Saurbæ. Hún starfar nú einnig í hlutastarfi sem reiðkennari við Háskólann á Hólum.

Pétur Örn

Pétur Örn er ættaður frá Hofsósi og Siglufirði. Hann byrjaði að ríða út og sniglast í kringum hesta með pabba sínum þegar hann var smá gutti. Pétur hefur unnið hjá mörgum þekktum tamninga og hestamönnum víða um landið. Meðal annara hefur hann unnið á hrossaræktarbúinu Hvoli í Ölfusi, Miðsitjuhestum (Sólveigu Stefánsdóttur og Jóhanni Þorsteinssyni), Hinriki Bragasyni og Huldu Gústafsdóttur, Tómasi Ragnarssyni og Guðmundi Björgvinssyni og Evu Dyröy. Pétur var í verknámi frá Háskólanum á Hólum á Hafsteinsstöðum, hjá þeim Skapta Steinbjörnssyni og Hildi Claessen. Því er óhætt að segja að Pétur sé búinn að viða að sér mikilli reynslu í tamningu, þjálfun og sýningum á hestum. Pétur Örn útskrifaðist frá Háskólanum á Hólum sem hestafræðingur og leiðbeinandi árið 2004, tamningamaður árið 2005 og þjálfari og reiðkennari C árið 2009. Pétur hefur talsverða reynslu af því að sýna hross í kynbótasýningu.  Fyrsta hrossið sem hann sýndi til 1.verðlauna  var  hryssan hans Venus frá Sjávarborg árið 2008. Hlaut hún þá meðal annars  9,5 fyrir skeið. Pétur Örn var í úrslitum í A-flokki gæðinga á Fjórðungsmóti Vesturlands 2009 á hestagullinu Þóru frá Prestsbæ, sem þá var einungis 6 vetra gömul. Pétur var búsettur og starfaði í Noregi í tvö og hálft ár hjá Inge Kringeland, árin 2011-2013. Pétur sýndi töluvert af hrossum í Noregi og árið 2012 sýndi hann fjögur af tíu hæst dæmdu hrossunum, sýndum í Noregi, þar af 3 stóðhesta 8,21-8,25 í aðaleinkunn og hryssuna Þilju frá Prestsbæ (8,17).  
Pétur sýndi stóðhestinn Hlekk frá Saurbæ, árið 2016. Hlaut hann 8,71 fyrir hæfileika og 8,48 í aðaleinkunn.  Þeir félagar náðu mjög góðum árangir saman í keppni, hlutu meðal annars 7,55 í úrslitum í fimmgangi F1. Þeir  enduðu svo  sinn feril saman á Landsmóti Hestamanna 2022 þar sem þeir komust í B-úrslit í feikna sterkum A-flokki gæðinga og enduðu í 14 sæti af yfir 100 keppendum. Pétur starfaði  sem reiðkennari við Háskólann á Hólum frá árinu 2016-2020 og var umsjónarkennari frumtamninga. 
Pétur býr og starfar nú í Saurbæ við tamningar og þjálfun hesta ásamt því að sinna flestum öðrum bústörfum sem falla til bænum.
Leit