Hrossarækt

Arinn og Grimur kljast2

Saurbær hefur verið í sömu fjölskyldunni í yfir 100 ár. Hesturinn hefur fylgt manninum, enda var hann þarfaþing hér á árum áður. Hér áður fyrr voru ræktuð hross sem nýttust ábúendum við dagleg störf á bænum og fólk hafði umfram allt gaman af samvistum við hestinn. Markviss hrossarækt hófst hins vegar ekki fyrr en upp úr aldamótunum 2000. Árið 2001 var kúabúskapur með mjólkurkýr lagður af og í framhaldi af því fest kaup á fyrstu verðlauna hryssunni Golu frá Yzta-Gerði og skömmu síðar gæðingnum Krafti frá Bringu sem Þórarinn Eymundsson gerði garðinn frægan á og varð m.a. tvöfaldur Íslandsmeistari tvö ár í röð og heimsmeistari í fimmgangi árið 2007. Í dag fæðast um 4-6 folöld á ári frá Saurbæ. Af ræktunarhryssunum hafa 4 fyrstu verðlaun í aðaleinkunn, vonandi bætast enn fleiri í hópinn í framtíðinni. Ræktunarmarkmiðið er að rækta geðgóð hross með jákvæðan, þjálan vilja og trausta lund. Við viljum rækta hross með fallega en umfram allt reiðhestlega byggingu, hross sem eiga auðvelt með að bera sig sjálf (bera og hreyfa sig með knapann í góðu jafnvægi). Við viljum að rækta hross með hreinar gangtegundir, mikla útgeislun, fallegan fótaburð og mýkt í hreyfingum. Við viljum að hrossin okkar geti sýnt afköst á gangi, hvort sem um er að ræða klárhross eða alhliða hross en séu jafnframt þjál og samvinnuþýð. Frábær reiðhross. Umfram allt viljum við rækta hross sem okkur finnst gaman að ríða á!

Print Email