Veturinn kveður og sumarið kemur

Written on .

Ardis a hestbaki

Nú vonum við að veturinn fari endanlega að kveðja og við taki bara sumar og sólarylur. Vorið hefur verið kalt sérstaklega ef miðað er við vorið í fyrra. Það hefur ýmislegt á daga okkar drifið hér í Saurbæ í vetur, þrátt fyrir að ekki hafi verið rituð mörg orð um það. 

Pétur stóð vaktina sem áður yfir nemendum sínum í Hólaskóla ásamt að þjálfa hross hér heima í Saurbæ. Heiðrún hefur einnig verið að temja og þjálfa eins og hún hefur getað en heimasætan Árdís Hekla hefur að sjálfsögðu verið í aðalhlutverki. Annina Pisano hefur verið að aðstoða okkur síðan síðasta sumar og staðið sig frábærlega. 

 

Í byrjun vetrar var FT norður með sýnikennslu og námskeið, þar sem kennari var Jakob Svavar Sigurðsson. Heiðrún skellti sér á námskeiðið sem haldið var á Hvammstanga og var frábært að fá nýjar hugmyndir og aðstoð frá jafn mögnuðum þjálfara og honum Kobba.

Pétur tók þátt í Meistaradeild KS og átti hann góða sýningu á Hlekki frá Saurbæ í fimmgangi, en fimmgangskeppnin fór fram á Akureyri fyrir troðfullu húsi. Pétur gerði smávægileg mistök í niðurtöku á skeiði í forkeppni sem kostuðu hann A-úrslita sæti en hann komst inn í B-úrslit í staðin. Þar áttu þeir félagar frábæra sýningu, uppskáru 7,14 og unnu B-úrslitin með yfirburðum. Þar sem að sigurvegari B-úrslita fer ekki áfram upp í A-úrslit, enduðu þeir í 6 sæti með 7,14.

Heiðrún byrjaði aðeins aftur að keppa í vetur eftir eins og hálfs árs hlé, með ágætis árangri og komst nokkrum sinnum í úrslit með Greip frá Sauðárkróki og Gylli frá Víðidal í Skagfirsku mótaröðinni. Heiðrún og Annina tóku að sjálfsögðu þátt í Kvennatölti Norðurlands. Annina keppti í fyrsta skipti á ævinni og stóð sig frábærlega. Hún reið hryssu sinni Rebekku frá Saurbæ sem hún keypti af okkur í vetur, sjarmerandi hryssa með mikinn fótaburð. 

Nú er allir á fullu í vorverkum hér á bænum og vorsýningarnar handan við hornið. Enn er ekkert folald fætt en nokkrir kálfar og lömb hafa litið dagsins ljós og nú er bara beðið eftir sumrinu. 

Hlekkur kvoldsol

Það er nauðsynlegt að skoða svona myndir til að minna sig á sumarið

Ardis a hestbaki

Árdsís Hekla á hestbaki, Eymundur afi heldur við :)

Kobbi og Heidrun

Heiðrún og Nikulás á námskeiði hjá Kobba

Rebekka og Annina

Annina og Rebekka í sveiflu á kvennatöltinu

Lömb 2018

Þrílembinar og allir flekkóttir :)

Print