Síðsumarssýning á Sauðárkróki

Við sýndum 3 hryssur á síðsumarsýnigunni á Sauðárkórki. Þetta voru þær Hrönn frá Neðra-Ási, Greip frá Sauðárkróki og Blæja frá Saurbæ. Allt hryssur sem eru í okkar eigu/umsjón og við höfum tamið og þjálfað.
Það náði engin þeirra að fara í 1. verðlaun að þessu sinni enda tvær að hryssunum klárhryssur en við erum engu að síður ánægð með útkomuna. Blæja er eina hryssan sem er úr okkar ræktun frá Saurbæ og ræktandi og eigandi hennar er Hallgrímur Eymundsson. Blæja er fyrsta afkvæmi hennar Hendingar frá Saurbæ sem kemur til dóms en Hending er 1. verðlauna klárhryssa, dóttir Huga frá Hafsteinsstöðum með 8,26 í aðaleinkunn og þar af 9,0 fyrir tölt og brokk og 9,5 fyrir fegurð í reið. Faðir Blæju er Blær frá Hesti. Blæja er sex vetra, skemmtileg klárhryssa, kát og viljug en jafnframt þjál og létt á tauminn og hlaut 8,5 fyrri tölt, brokk, vilja og fegurð í reið en 9,0 fyrir stökk. Blæja hlaut 7,89 í aðaleinkunn. Blæja og reyndar hinar hryssurnar líka voru ekki tamdar fyrr en á 5 vetri, þar sem við bjuggum út í Noregi og finnst okkur þær því eiga inni og eiga góða möguleika að gera enn betur á næsta ári
Greip frá Sauðárkróki er úr ræktun Sólveigar Stefánsdóttur og Jóhanns Þorsteinssonar og er hún eitt síðasta hrossið sem Jói heitinn ræktaði með Sollu. Greip eignuðumst við þegar hún var á 5 vetur, en gaman er frá því að segja að ég tók eftir Greip sem folaldi á folaldasýningu 2009 og langaði alltaf til að eignast hana en hafði nú ekki efni á því að hugsa um það þá. Þá var það meira tilviljun en hitt að hryssan er nú í okkar eigu. Sólveg bað okkur um að temja fyrir sig og við mættum velja úr 3 hrossum í staðin, ég var ekki lengi að ákveða mig en Pétur var ekki viss, en svo varð úr að við eignuðumst hryssuna. Greip er undan Gjálp frá Miðsitju sem var undan Gunnvöru frá Miðsitju og Aroni frá Strandarhöfði. Faðir Greipar er Kjarni frá Þjóðólfshaga. Greip er mikil prímadonna svo maður sletti nú aðeins með ofsalega efnilegt tölt og gæti orðið góð í töltkeppni, en hún fékk 8,5 fyrir tölt og hægt tölt á sýningunni ásamt fegurð í reið, hún er skrefmikil með miklar hreyfingar. Hún var sýnd sem klárhryssa og hlaut 7,83 í aðaleinkunn sem er ágætis byrjun.
Hrönn frá Neðra Ási á sér líka skemmtilega sögu. Hrönn keyptum við í Laufskálarétt þegar hún var tveggja vetra, en í dag er hún 7 vetra. Við erum ánægð með kaupin en hún fór í 7,98 í aðaleinkunn á sýningunni og sennilega ekki öll kaup úr réttini sem hafa endað svona vel. Pétur sá hana Hrönn inni í dilknum frá Neðra Ási og sýndi mér og það var bara eitthvað við hana sem okkur leist vel á. Við fórum svo síðar að skoða hana aftur hjá Jóni í Neðra Ási einhverjum dögum síðar, en þegar við vorum á leiðinni að skoða hana gerði sliddu og ógeðslegt veður og merin sýndi ekki mikla takta og fór aðalega um á lulli, en samt var það eitthvað sem okkur fannst vera við hana, þannig að við ákváðum að taka slaginn og kaupa hryssuna. Hrönn er undan Fantasíu frá Neðra Ási og Smárasyninum Fjörni frá Hólum. Hrönn er mjög viljug alhliða meri og einstaklega ósérhlífin og leggur allt í verkefnið en líkaminn nær ekki ennþá alltaf að fylgja huganum eftir. En það væri hægt að ríða henni einhesta upp á heiði og hún myndi aldrei gefast upp.