Fyrsta mót ársins 2017

Pétur og Maiju tóku þátt í sinni fyrstu keppni á árinu 2017 í gær og stóðu sig með stakri prýði. Skagfirska mótaröðin í fullorðinsflokki hóf göngu sína, þar sem keppt var í fjórgangi V5 og tölti T7. Pétur vann tölt í 1. flokk með 7,0 í einkunn á hryssu í okkar eigu, Greip frá Sauðárkróki.
Greip er undan Gjálp frá Miðsitju og Kjarna frá Þjóðólfshaga. Maiju komst einnig í úrslit í tölti á alhliðahryssunni sinni Eldingu frá Hvoli. Maiju lenti svo í öðru sæti í fjórgangi 1. flokk á honum Vopna frá Sauðárkróki, en þau hlutu 6,75 í einkunn. Þetta var þeirra fyrsta keppni saman og því frábær byrjun á keppnisferlinum. Pétur lenti í 3. sæti á stóðhestinum Gylli frá Víðidal en þeir voru einnig að þreyta sína frumraun í keppni saman og sýndu mjög efnilega takta og verður spennandi að fylgjast með þeim þróast saman. Pétur komst einnig í úrslit í fjórgangi með hana Greip, en valdi að sýna Gylli í úrslitum. Gyllir er undan Hófi frá Varmalæk og gæðingnum Gnótt frá Víðidal.